<- ->
Ketilsstaða er ekki getið í fornsögunum. Jörðin hefur löngum verið í bændaeign. Hún er syðst í Hjaltastaðaþinghá, vestan Selfljóts, frá Græfum, sem nú er Kjarvalshvammur á sýslumörkum gegnt Hreimsstöðum, norður á Merkiholt í blánni Glámu hinni ytri og þaðan þvert austur í Selfljót, með Bárðarlæk rétt sunnan Kvisthaga. Vesturmörkin eru sunnan frá beygju á Steinsvaðsvegi og norður yfir Vörðuhöfða vestur af Hlégarði og áfram á klettaholtið í Glámu. Selfljót er austan jarðarinnar. Hún er 5 km löng og misbreið (mest 2 km). Hlégarður og Ártún eru nýbýli úr landi Ketilsstaða. Þjóðvegurinn liggur eftir endilöngu landi jarðarinnar.
Jóhannes Kjarval, listmálari, hafðist við flest sumur (1948-68) í skúrbyggingu í Ketilsstaðalandi. Í Kjarvalshvammi stendur líka geymslukofi og naust Gullmávsins. Ofan hvammsins er klettaásinn Háöxl og margir telja, að Kjarval hafi orðið var við huldufólk þar. Erla Stefánsdóttir áði þarna í hvamminum og þóttist m.a. sjá jarðdverga við skúrinn og þrjú há og mjó hús uppi í klettunum.