NAT

Málmey

Málmey er stærri eyjan af tveimur á Skagafirði. Hún er norðaustan Drangeyjar, 4 km löng og 2,4 km breið. Hún er fremur láglend en hækkar til norðurs, þar sem hæsti punktur, Kaldbakur, rís 156 m yfir sjó. Sunnanverð eyjan er úr móbergi og norðurhlutinn er hraundyngja. Líklega hefur hún gosið á fyrri hluta íslaldar.

Eyjan var lengst af í byggð fram undir 1950. Þá brann bærinn á Þorláksmessu. Þegar það gerðist bjuggu 14 manns í bænum, þar af 10 börn. Graslendi er mikið í Málmey og bújörðin var talin góð. Álög hvíldu á eyjunni. Þar áttu hvorki mýs né hestar að geta þrifist og engin hjón máttu búa þar lengur en í tvo áratugi. Væri því ekki hlítt, átti eiginkonan að hverfa sporlaust. Í þjóðsögum er hægt að lesa um afleiðingar þess, að álögin voru ekki virt og þar kemur Hvanndalabjarg við Eyjafjörð við sögu.

Kirkja stóð í Málmey fram á síðari hluta 18. aldar og í máldögum frá 1318 er skírt kveðið á um að þar ætti að brenna ljós hverja nótt frá krossmessi á hausti til krossmessu að vori. Þetta var gert til öryggis fyrir sjófarendur, en núverandi viti í Málmey var byggður 1937. Eyjan er í eigu vitamálastjórnar.

Í Sturlungu segir frá hremmingum Guðmundar góða, biskups, Arasonar. Árið 1221 varð hann að flýja Hólastól með miklu föruneyti undan Tuma Sighvatssyni og Skagfirðingum, sem hótuðu að rýma staðinn. Hann fór út í Málmey á jólaföstu og var þar um kyrrt fram á næsta ár. Nokkrir manna hans fóru til Hóla og drápu Tuma og eftir það flutti biskup sig um set til Grímseyjar. Þar var hann um kyrrt, þar til leiðangur var gerður eftir honum til hefndar.